fredag 30. mai 2008

Gott veður

Það eru sko 26 gráður í forsælu á pallinum hjá mér, yndislegt alveg:-) og það á bara eftir að verða hlýrra næstu daga, þannig að ég hugsa að ég fari með hann Aron á ströndina fljótlega. Hann er samt ekki farinn að lykta.
Hér er svo mynd af því sem hann plantaði á miðvikudaginn, ég tek svo aðra mynd þegar blómin eru byrjuð að spretta, en þetta finnst honum skemmtilegt.

Ég var heima veik í dag, eða ekki veik, en ég var hins vegar með ælupest í gær og þá má ég ekki mæta í vinnu aftur fyrr en ég er búin að vera einkennalaus í 24 tíma. Því miður, en þetta er ný regla í leikskólanum og ég skil vel að þessi regla hafi verið sett. Í haust var svo mikið af börnum í leikskólanum sem voru með hita eða ælupest og svo komu þau aftur daginn eftir, þá smituðu þau hina krakkana og svona gekk þetta endalaust þangað til að við settum þessa 24 tima reglu. Þannig að ég er bara búin að vera að þvo þvott í allan dag á launum, ferlega skemmtilegt:-)

Ég var að lesa bloggið hennar Helgu frænku í Miðengi og það skemmdist ekkert hjá þeim í jarðskjálftanum, sem betur fer. Hef ekki heyrt frá Huldu vinkonu, hún býr í Hveragerði, en ég vona að þau séu ok.

Koss og knús frá Maju og liðinu hennar

onsdag 28. mai 2008

Nokkrar myndir

Föngulegur hópur þarna á ferðinni, þetta eru sem sagt tengdaforeldrar mínir með stráka skarann sinn, sex stykki og geri aðrir betur:-) Fremst á myndinn eru Lúlú, Steingrímur og Jón, bak við þau standa svo þeir Friðlaugur, Unnþór, Andrés, Ólafur og hann Ásgeir minn.
Bara smá sýnishorn af matnum sem var á boðstólum, ég fæ eiginlega bara vatn í munninn við að sjá svona kræsingar.
Af og til er það alveg frábært að hafa einn ofvirkan aðila á heimilinu, garðurinn var orðinn svoldið mikið loðinn og Aron hafði ekkert að gera þannig að þessi elska sló blettinn fyrir mömmu sína, frábært:-) Vil samt taka það fram að bletturinn minn er ekki stór (man eftir að hafa séð mynd af honum Villa mínum með Rúnar Atla á bakinu að slá engið í Stillholtinu:-)) minn garður er eiginlega á stærð við frímerki og ég er ekki að ýkja:-) En drengnum finnst þetta skemmtilegt og mér ekki, þannig að ég var ekkert að banna honum að draga út slátturorfið, sem virkaði ekki (þráðurinn í því var búinn), þannig að hann varð að fá lánaða svona eldgamla slátturvél hjá honum Ove til að klára verkið.
Þegar hann var búinn að slá frímerkið okkar, tók hann sig til og fór að planta, hann sáði fullt af blómafræjum, gulrótum og til að toppe heile driten, gróf hann upp tré (með rótum og alles) og plantaði því í blómapott:-)

Koss og knús frá Maju og liðinu hennar í Vennesla

søndag 25. mai 2008

Útsrkiftarveislur

Vil byrja á því að óska mágum mínum, þeim Friðlaugi og honum Steingrími (ekki þinn Steingrímur Inga mín:-)) til hamingju með áfangann:-) Set inn myndir af þeim þegar Ásgeir kemur heim með hana Stellu mína.

Annars er bara búið að vera rólegt hjá okkur, að sjálfsögðu var fylgst með Júróinu í gær og Ísland fékk alveg slatta af atkvæðum frá okkur, en ekki dugði það til sigurs. En við tökum þetta á næsta ári, nú eða árið þar á eftir eða..... Okkar dagur mun koma.

Ég er búin að sjá að það er ekki hægt að treysta veðurfræðingum fyrir fimm aura. Ég var búin að hlakka svo mikið til að geta loksins baðað hann Aron, en nei það er búin að vera rigning og kalt í dag, þannig að hann fór bara í sturtu:-)

Guð hvað ég er andlaus eitthvað, nenni ekki einu sinni að segja ykkur lygasögu, þannig að þangað til næst segi ég bara koss og knús til ykkar frá okkur:-)

onsdag 21. mai 2008

Grillað

Jebb, María Dröfn grillaði áðan, ekki pylsur Aron grillaði þær, heldur skellti ég svínahnakkasneiðum á grillið:-) Ég hef hingað til haldið mig við pylsurnar, enda gift kokki og finnst leiðinlegt að elda, en þar sem að kokkurinn er kominn heim til elsku mömmu á Ísó, þá braust grillmeistarinn fram í mér. Ég ætlaði að taka myndir þessu til sönnunar, en mundi þá að hann Ásgeir tók Stellu með sér til Íslands, svo ég sagði Aroni að ná í vídeóvélina, en hún var með tómt batterí. Hvað gera bændur þá, jú Aron vildi að ég geymdi bara eina svínasneiðina þangað til að pabbi hans kæmi heim aftur og þá gæti ég tekið mynd:-) Nei, ég var nú ekki alveg á því, enda ferlega svöng og ekkert rosalega geðslegt að hafa dragúldið svínakjöt í ísskápnum, hann skildi það alveg drengurinn og lofaði þess vegna hátíðlega að hann skildi segja pabba sínum að mamma hefði grillað:-) Algjör snillingur þessi elska.

Ásgeir fór sem sagt í morgun áleiðis til Ísafjarðar, ég talaði við hann áðan og þá var hann að tékka sig inn í flugið vestur. Hann ætlar að hjálpa mömmu sinni með útskriftar veisluna á laugardaginn, svo fer hann á Bob Dylan tónleika á mánudaginn og svo flýgur hann heim á þriðjudaginn.

Annars gengur lífið bara sinn vana gang hjá okkur, skóli og vinna og svoleiðis. En ég heyrði í útvarpinu í morgun að það á að fara að hlýna verulega hjá okkur á næstu dögum og á sunnudaginn á að vera geggjað veður, þá er ég að hugsa um að fara með Aron á Hamresanden (það er strönd sem er í næsta nágrenni við flugvöllinn) og baða. Ég á ekki von á því að unglingurinn minn nenni að fara með okkur, enda engin nettenging þar og sjálfsagt er það ekki gott fyrir tölvuna að vera full af sandi:-)

Aron Snær var sofnaður klukkan 19, ég vona að hann sofi fram á morgun, ég allavega nenni ekki að fara á fætur með honum í nótt. Hann var nefnilega að hjálpa mér í vinnunni í dag, hann var búinn í skólanum kl 12 og kom til mín rétt eftir skóla og við vorum ekki búin að vinna fyrr en korter í fimm. Þá fór hann að grilla pylsur og eftir það var hann bara alveg búinn á því, þessi elska.

Koss og knús frá grillmeistaranum í Vennesla:-)

søndag 18. mai 2008

Tyggjó

Ég elska Wrigley´s tyggjó, en það er ekki oft sem það fæst í búðunum hérna í Norge, þannig að þið getið bara ímyndað ykkur hamingjuna hjá minni í gær þegar ég sá þessa risa tyggjópakka í sjoppu í Kr. sand í gær. Það eru sko 15 tyggjóplötur í hverjum pakka:-) Þetta er sama sjoppan og Aron plataði afa sinn inn í þegar hann var hér um daginn, það er nefnilega líka hægt að kaupa íslenskt Rís súkkulaði og lakkrísdraum þar.

Annars er bara allt gott að frétta hjá okkur, ég var svo þreytt eftir gærdaginn að ég var farin upp í rúm fyrir kl 11 í gærkvöld og ég svaf til að verða 9 í morgun:-) Ekki amalegt það.

Á morgun og hinn kemur ljósmyndari í leikskólann til að taka myndir af börnunum, það eru teknar myndir af hverri deild fyrir sig, þannig að frúin verður að líta vel út:-) Þoli ekki þetta myndamál á hverju vori, þetta er ferlega mikið stress fyrir okkur sem erum að vinna á deildunum, klæða börnin í fín föt, passa að þau séu hrein í framan, spennur og teygjur í hárið á stelpunum og þar fram eftir götu. Ekki mikið mál ef að það væru ekki 19 börn á hverri deild og við bara 3 að vinna. En á Vuggestua, myndirnar verða teknar þar á þriðjudaginn, eru "bara" 12 börn og við 4 að vinna, en það verður sjálfsagt erfiðara, því börnin eru svo lítil þar og erfitt að útskýra fyrir þeim að sitja kyrr og brosa:-)

Ásgeir fer til Íslands á miðvikudaginn og verður fram á þriðjudag, þannig að ég verð að púsla heimilishaldinu aðeins, þarf að taka Aron með mér í vinnuna þegar ég mæti snemma, Ingólfur verður að hjálpa mér með Aron þegar ég er að vinna lengi og svoleiðis. En sem betur fer er hann Ingólfur minn orðinn svo stór að hann hjálpar aldraðri móður sinni með þetta:-) En sem betur fer þarf ég ekki að fara á neina kvöldfundi næstu vikuna, bara á morgun og þriðjudaginn.

Koss og knús frá Maju

lørdag 17. mai 2008

Hipp, hurra for Norge:-)

Ingólfurinn minn keypti sér þennan flotta hatt í dag, þeir fá sko alltaf pening á 17 mai og mega kaupa sér það sem þeir vilja, auðvitað. Og drengurinn fann það út að þennan hatt þyrfti hann:-)
Varð að setja inn mynd af fánanum, ég bannaði Aroni að flagga þeim íslenska, enda passar það ekki á þessum degi, en þann 17 júní má hann flagga honum:-) Ég vona bara að við munum eftir íslenska þjóðhátíðardeginum, við höfum alltaf gleymt honum, enda er það bara eins og hver annar dagur hér í Noregi, ég ætti kannski að lára gemsann hjálpa mér að muna eftir 17 júní þetta árið:-)
Þetta er tekið á Idrettsplassen, það eru lúðrasveitir og læti,
falleg börn, klædd í sitt fínasta púss,
og bara fullt af lífi.
Þetta keypti Aron sér fyrir sína peninga, hann varð að pósa fyrir mig:-) hann spurði hvort ég ætlaði að setja inn mynd af byssunni hans á netið, að sjálfsögðu ætlaði ég að gera það, þá dró hann mig og Stellu út á pall og hann var lengi að ákveða í hvaða stellingu hann ætti að vera:-) Mér finnst hann líta út eins og hryðjuverkamaður á myndinni, en það var sko það sem hann vildi.

Dagurinn byrjaði snemma hjá okkur, við vorum farin á fætur kl hálf sjö, Ásgeir þurfti að vera mættur í vinnu kl sjö, þannig að ég keyrði honum, svo kom ég heim og gerði strákana klára, Aron setti út flaggið, svo var brunað niður í sentrum með Ingólfinn, hann fór sko í skrúðgöngu en Aron nennti ekki að fara. Þannig að hann fór með mér á Idrettsplassen, þar þurfti ég að græja söluskálann, við seldum mikið af vöfflum, kaffi og ís:-) Þegar ég var búin að vinna þar, fórum við til Kristiansand og sóttum Alexöndru, við röltum aðeins um og strákarnir keyptu sér það sem þeir "þurftu":-) Svo var haldið heim á leið, við mæðgurnar sofnuðum aðeins í sitthvorum sófanum, svo þurfti ég að fara aftur til Kr.sand til að sækja Ásgeir og svo komum við heim og Maja eldaði kvöldmatinn, hakk og spagettí:-)

Koss og knús frá okkur hér í Vennesla.

fredag 16. mai 2008

Upphitun fyrir 17 mai

Í leikskólanum í dag héldum við upp á 17 mai, það kom lúðrasveit og börnin fóru í skrúðgöngu (tog) um hverfið, seldar voru kökur og pylsur og svo var það rúsínan í pylsuendanum: Krakkarnir gáfu út geisladisk:-) Í allan vetur eru þau búin að semja texta og æfa söng og í dag kom loksins geisladiskurinn út. Það er einn karlmaður að vinna í leikskólanum (en fullt af kvenmönnum:-)) hann er líka trúbador, og hann sér um að kenna krökkunum að syngja, við erum með eigið upptökustúdíó og getum þar af leiðandi tekið upp okkar eigið efni. Og síðustu árin hefur það verið svoleiðis á 17 mai hátíðinni okkar að við höfum líka gefið út geisladisk með þekktum norskum barnagælum. En í ár var það þannig að krakkarnir sömdu sjálf textana og hann Johnny samdi lögin við textana, þetta er bara yndislegt að heyra krakka alveg frá 1 árs og upp í sex ára, syngja eins og þau ættu lífið að leysa. Enda var mikið af foreldrum og ömmum og öfum sem voru að hlusta á þau syngja í dag, með tár á hvörmum:-) Svo sungu allir Ja vi elsker (þjóðsöngur Noregs) Þessi dagur hefur bara verið æðislegur.

En á morgun er 17 mai og María er búin að lofa að standa í söluskála á Idrettsplassen og selja vöfflur og kaffi og nammi, því miður, (veit ekki alveg hvað ég var að hugsa þegar ég sagðist geta það) fyrir svanga krakka og foreldra þeirra. En þegar ég er búin að vinna þar, þá ætla ég og strákarnir mínir til Kristiansand og skoða mannlífið þar og svoleiðis. Ásgeir er sko að vinna, hann þarf að vera mættur kl 7 í fyrramálið og sjálfsagt verður hann að vinna eitthvað frameftir.

En koss og knús frá Maju, sem er búin að eiga alveg yndislegan dag í dag:-) Vona að ykkar föstudagur hafi verið eins góður og minn.

torsdag 15. mai 2008

Að vera Íslendingur búsettur í Noregi

Er yfirleitt auðvelt, nema þegar Aron þarf að gera heimavinnuna sína þessa dagana. Þessi vika er eiginlega bara um það að vera Norðmaður (þjóðhátíaðardagur Norðmanna er á laugardaginn) og hann þarf að skrifa um það; hvað þýðir það fyrir þig að vera norskur!!! Við eigum, eða hann, svoldið erfitt með að tjá okkur um það. En hann fann það út hvað það er að að vera norskur, þá vaknar maður snemma á 17 mai, flaggar, fer í tog, borðar mikið af ís, pylsum og drekkur mikið af gosi. Bjánalegt samt að hann hafi þurft að tjá sig um það hvað að vera norskur, þegar hann er svo stoltur af því að vera Íslendingur. Spyr hann aftur 17 júní, um hvað það þýði fyrir hann að vera Íslendingur:-)

Koss og knús frá okkur í Vennesla

onsdag 14. mai 2008

Aflafréttir og myndir.-)


Hér er mynd af litlu ömmustelpunni minni:-) Þetta er andlitið hennar í prófíl, auðvitað er þetta fallegasta barn sem um getur (fyrir utan mín þrjú:-)) Það er svo gaman að þessu.

Það var stoltur veiðimaður sem kom heim í gær eftir veiðitúrinn, drengurinn veiddi nefnilega einn fisk:-) Ásgeir segir að þetta hafi verið steinbítur, ég trú honum alveg. En því miður missti Aron einn af spúnunum sínum, en það kom ekki að sök, enda á drengurinn fullt af þeim:-) Fiskurinn er í frystikistunni, ég á ekki von á því að hann verði borðaður, enda var hann ekki stór, en veiddur fiskur er jú veiddur fiskur:-) Aron og Ingólfur tala ennþá um það þegar þeir voru hjá ömmu og afa á Ísó hér um árið (held að það hafi verið 2004) þeir fóru með afa sínum á sjóinn, ekki í veiðferð, heldur þurfti afi að færa bátinn (skipið?) í aðra höfn, þetta fannst þeim sko gaman. Svo um daginn er Aron að tala um þessa ferð við mig, ég spyr hvort þeir bræður hafi orðið sjóveikir (minnug ælukeppninnar í fyrra á Danskabátnum) Nei veistu mamma ég get ekki orðið sjóveikur (hann greinilega búinn að gleyma ferðinni í fyrra) ég er nefnilega með sjóðarablóð (hans eigin orð) í blóðinu:-)

Ingólfur var valinn, annað árið í röð, til að keppa í Tine stafetten, einhver hlaupakeppni sem verður haldin seinna í vor í Kristiansand. Sprækur eins og mamma sín, þessi elska:-)

Hún Gulla systir er í þessum skrifuðu orðum að labba út úr flugvél á Keflavíkurvellinum, komin heim á elsku Klakan sinn:-) Hún ætlar að vera þar í 5 vikur, Dagmar verður 20 ára þann 4 júní, þannig að auðvitað vill Gulla vera með henni þá:-) Svo ætla þær mæðgur á Laddi sextugur. Ég vona að hann komi út á DVD, dauðlangar að sjá hann sko, en ég á ekki von á því að hann komi hingað til Vennesla til að skemmta mér:-) en ef hann vill er hann velkominn.

Koss og knús frá okkur hér í Vennesla

tirsdag 13. mai 2008

Frábær dagur:-)

Ákvað að setja inn mynd af henni Helgu Sig. ég gerði sem sagt kakósúpu í gær, hún tókst svona asskoti vel að ég varð að gera hana tvisvar:-) Enda klikkar hún Helga Sig. aldrei. Drengirnir voru afskaplega ánægðir með kvöldmatinn, sem betur fer.


Ég var mætt í vinnu í morgun kl 6.45, frekar illa sofin því ég vaknaði í nótt um fjögurleytið og mundi eftir því að ég hafði gleymt að panta 300 pylsubrauð fyrir 17 mai veisluna í leikskólanum sem verður haldin á föstudaginn. Ég svitnaði og hjartað sló eins og geðsjúklingur og ég gat ekki sofnað aftur:-( En ég er búin að panta brauðin, þannig að ég vona að ég sofi vel í nótt:-) Svo fórum við með leikskólabörnin í bæjarferð, keyptum rúnstykki og fiskekaker og borðuðum í sentrum, voðalega gaman að gera eitthvað svona:-) En mikið djö.... var erfitt að labba til baka í leikskólann með tvíburakerru og upp brekkuna, en það hafðist.

Ingólfur kom heim í morgun, eftir bara þrjá tíma í skólanum, hann og hinir krakkarnir í ungdomsskolen voru á leiðinni niður í sentrum í löngufrímínútunum og russen beið eftir þeim með vatnsbyssur og drengurinn varð rennandi blautur þannig að hann varð að fara heim. Russ eru þeir krakkar sem eru að fara að útskrifast úr menntaskóla núna í vor, þau eru klædd í mismunandi litaðar buxur, eftir því af hvaða braut þau útskrifast (rauðar, grænar, bláar og svartar) og þau eru endalaust sprautandi vatni á krakkana í ungdomsskolen. Ég tek myndir á 17 mai til að sýna ykkur, þau keyra um á bílum sem eru skreyttir, þau skrifa eitthvað mis gáfulegt á bílana og eru bara eiginlega með læti:-) Ekki ósvipað krökkunum á Íslandi sem eru að dimmitera, en hér stendur þetta umsátur yfir í einhverjar vikur.

Ég og Aron vorum búin að ákveða að hittast í sentrum í dag kl 2 til að kaupa blóm, en þá hringdi Zilas til að bjóða Aroni með á fiskiveiðar, þannig að við keyptum engin blóm, en hann keypti sér einhverja fiskiöngla í staðin. Hann er ekki kominn heim drengurinn, þannig að ég býð spent eftir aflafréttum, læt ykkur vita seinna hvernig gekk hjá þeim félögunum.

Koss og knús frá Maju

mandag 12. mai 2008

Aron blómálfur:-)

Aron var hjá Ove, nágrannanum okkar í gær, og kom heim með túlipana:-) Hann fékk sko leifi til að týna þá því Ulla kærastan hans Ove er með ofnæmi fyrir túlipönum. Þannig að ég lít á þetta sem mæðradagsgjöf, en í Norge er mæðradagurinn að mig minnir í mars, en ekki í maí eins og á Íslandi.
Svo kom hann heim með graslauk áðan, Ove og Ulla voru með svo mikið af lauk. Þannig að núna er hann búinn að plata mig til að fara með honum í sentrum á morgun til að kaupa blóm svo hann geti plantað þeim hérna heima. Enda er það bara gott, því við verðum að vera búin að setja niður einhver blóm fyrir 17 maí.

Ég er búin að strauja fjallið mitt, það tók ekki nema 2 tíma:-) Svo tók ég til í fataskápnum hans Arons, það var svo mikið af fötum sem eru orðin of lítil á hann. Verst að það er enginn í fjölskyldunni sem getur erft fötin, svo að ég annað hvort hendi þeim eða fer með þau í bruktbutikken.

Annars er allt gott að frétta, það er að vísu búið að vera kalt hjá okkur í dag, kannski 15 gráður, en það er svo mikill vindur, þannig að ég er ekki búin að vera neitt úti á palli. Svo er helv.... myggen kominn, ég er sko með myggbit á lærinu og þeim á eftir að fjölga í sumar, því miður:-(

Ég ætla að gera kakósúpu í kvöldmatinn, Aron er búinn að vera að byðja um hana í marga daga, vona bara að ég kunni að gera svona súpu, nú ef ekki þá er bara að kíkja í hana Helgu Sig. það er örugglega uppskrift af súpunni í henni:-)

Koss og knús frá okkur hér í Vennesla.

søndag 11. mai 2008

Get eiginlega ekki þagað lengur:-)

En Alexandra og Ckristoffer fóru í 19 vikna sónar síðasta mánudag og þau fengu að vita kynið á barninu. Og þau eiga von á STELPU:-) Ljósmóðirin sem tók myndirnar sagðist vera 99.99% viss um að það er stelpa á leiðinni. Eiginlega vorum við öll viss um að það kæmi strákur, enda er það venjan í þessari fjölskyldu. Og svo til að kóróna allt, þá má ég vera viðstödd fæðinguna:-) Ég er ekkert smá ánægð með það. Þannig að nú er kominn tími á að prjóna eitthvað bleikt:-)

Annars er bara allt gott að frétta, Aron og Zilas eru búnir að vera hér í dag, þeir eru búnir að fara tvisvar upp á Tjønna til að synda. Ekki er ég að fatta þetta með þessa krakka, að geta synt í ísköldu vatni, ég held að vatnið sé svona um 16 gráðu heitt, það verður sko heitara í sumar, en samt. En sem betur fer á hann Aron Snær alla vegana 10 sundbuxur, sem er eins gott því hann þarf alltaf að hafa hreinar í hvert skipti sem hann fer að synda. Þegar líður á sumarið geta sundferðirnar orðið 4 á hverjum degi, þannig að það verða margar buxur og mörg handklæði sem þarf að þvo:-) Verst er allur helv.... sandurinn sem hann kemur með heim eftir þessar sundferðir sínar.

Ingólfur er hjá Stian, hann tekur sko tölvuna sína með sér þangað. Ég fékk samt að prófa gripinn í morgun, Ingólfur var sofandi, djö.. hvað mig langar í svona græju, enda ætla ég bráðum að fjárfesta mér í einum slíkum, ég veit að Aron býður eftir því, hann fær þá þessa tölvu sem ég er í núna til eignar.

Koss og knús frá Maju og genginu hennar.-)

lørdag 10. mai 2008

Hér er svo maturinn

Steikin komin á grillið
Og svona sá maturinnn út þegar hann var kominn á diskinn:-)
Bara til að minna ykkur á að bera á ykkur sólarkrem, svona leit ég út eftir mánudaginn, ég mundi eftir að bera krem á mig í andlitið, á bringuna og á hendurnar, en ég gleymdi að bera krem á bakið á mér. Þetta var ekki gott.

Koss og knús rfá okkur hér í Norge

Sumarið er komið:-)

Hér er búið að vera geggjað veður alla vikuna, hitinn hefur ekki farið undir 20 gráður á daginn, ég tók þessa mynd af morillu trénu mínu fyrr í vikunni, það er sko byrjað að blómstra og gera sig klárt fyrir að bera ávöxt í sumar:-)
Aron var að slá garðinn fyrir mig, ber að ofan og ferlega flottur þessi elska:-) Ekki amalegt að hafa svona gæja til að hjálpa sér. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð mikið af honum Ingólfi mínum síðan hann fékk tölvuna, hann er sko inni í herberginu sínu allan daginn að spila WOW, en núna er hann hjá Stian, ég sagði við hann þegar hann fór að það gleddi mitt gamla mömmuhjarta að sjá hann loksins fara út:-)
Svona lítur tréið mitt út í þessum töluðu orðum (skrifðuðu) það koma fleiri blóm á hverjum degi. Ég er búin að liggja í sólbaði síðan snemma í morgun og núna er ég bara aðeins að hvíla mig á sólinni. Hitinn á pallinum er í 40 gráðum núna, í sólinni, þannig að það er eiginlega ólíft þar úti. Svo er ég búin að vera að þvo þvott í allan dag, hann þornar á snúrunum á meðan vélin er að þvo næsta hlass. Ég hefði kannski átt að taka mynd af fatafjallinu sem býður eftir að ég strauji það, en það er nó vei að ég nenni því núna:-) Á morgun segir sá lati og Maja tekur undir með honum:-)
Hér er svo hann Ásgeir minn, hann var að vinna í dag, en um leið og hann kom heim settist hann út og fór að ráða krossgátur (í boði Jóns:-)) Aron er hjá Zilas og ætlað að gista hjá honum, þannig að það verður rólegt hjá okkur í kvöld. Ég er að hugsa um að horfa á hann Indiana Jones og hafa gaman af. Ásgeir ætlar að grilla kálfakjöt og gera alvöru bearniessósu fyrir okkur, ummmm. Getur lífið verið eitthvað betra en þetta: brjáluð sól, þvotturinn þornan eins og skot, gott á grillið, kaldur bjór og Villi Vill syngur undir þessu öllu saman:-) Eigið þið góðan dag öllsömul.

Koss og knús frá Maju og liðinu hennar:-)

søndag 4. mai 2008

Myndir

Þetta er hillan sem hann Aron Snær fékk frá ömmu sinni og afa, ekkert smá flott og hann var sko ánægður með það að fá gjöf líka:-) Ég gleymdi að taka mynd af myndinni sem hún Alexandra fékk frá þeim, en hún er ferlega flott (myndin sko:-))
Hér er svo besti vinur hans Ingólfs, ég ætlaði líka að taka mynd af peningunum sem hann fékk, en drengurinn er hjá honum Stian og tók alla peningana með sér:-) hann fékk sko íslenska, norska og danska peninga:-) Íslensku peningarnir fóru inn á sparireikning sem amma hans stofnaði fyrir hann á Íslandi fyrir mörgum árum síðan, mjög sniðugt að leggja þá þar inn, hann getur svo tekið peninginn út þegar hann verður 18 ára. Svo gleymdi ég að segja að amma og afi gáfu báðum strákunum nýjar sængur og kodda.
Og hér eru svo krossgátublöðin sem Jón gaf okkur, við erum sko forfallnir krossgátusjúklingar á þessu heimilinu:-) Svo fengum við harðfisk, nammi, KAFFI og nýja DVD mynd sem heitir svo mikið sem Pressa. Ása og Finn komu með KAFFI og pínkulitlar rauðbeður fyrir okkur hjónin. Þannig að frúin á sko kaffi og er ekkert smá ánægð með það:-)

Koss og knús frá okkur í Vennesla:-)

Jæja þá er stóri dagurinn liðinn:-)

Hér er fermingardrengurinn búinn að fá viðurkenninguna og þar með kominn í fulloðinnamanna tölu:-) Þessi borgaralega athöfn var bara flott, krakkarnir löbbuðu inn undir dynjandi lófataki og músikk, svo voru haldnar ræður og krakkarnir fengu viðurkenningu, rós og handofinn trefil sem krakkar í flóttamannabúðum í Burma höfðu ofið, svo var sungið og loks gengu krakkarnir út við mikil fagnaðarlæti:-)
Hér eru þeir feðgar
og við mæðginin
Ingólfurinn minn að opna gjafirnar sínar, það kom sko slatti af peningum upp úr umslögum, hann fékk auðvitað tölvuna frá okkur, frá Möggu og Binna og börnum fékk hann tösku undir tölvuna og inn í henni leyndist 500 kall:-)
Þetta er svo gjöfin frá ömmu og afa, hann fékk sko nýtt rúm, náttborð og svo hafði amma saumað rúmteppi fyrir hann.

Drengurinn var óskaplega ánægður með allt og hann sendir ykkur kærar þakkir fyrir að hafa hugsað til hans á þessum merkisdegi, við foreldrarnir þökkum ykkur líka.

Í morgun var farið á fætur kl. 6 því Lúlú og Jón og strákarnir þurfu að mæta svo ferlega snemma á flugvellinum. Svo þurfti Ásgeir að keyra Ásu og Finn inn í Kristiansand svo að þau gætu tekið bátinn yfir til Danmerkur. Svo fylltist húsið hjá mér áðan af vinum hans Arons, þeir voru 4 hér inni í stofu hjá mér að spila borðtennis:-) Og allt var sko tekið upp á vídeó, ég held að þeir hafi verið með einhverja keppni og svoleiðs þarf auðvitað að festa á filmu. En svo eru þeir núna hér fyrir utan að leika sér með glerkúlur. Og hvað haldið þið að hann Ingólfur sé að gera? Jú hann er að spila í tölvunni sinni:-)

Koss og knús frá Maju, Ásgeir, Ingólfi og Aroni Snæ:-)